Leita í fréttum mbl.is

Um ljótu börnin

Mig langar að segja ykkur örlitla sögu áður en ég held út í hinn stóra heim. Vonandi gefst mér tóm til að klára hana á þessari vakt(er á næturvakt á Vöknun sem stendur), en ef hún klárast ekki þá kemur seinni parturinn inn von bráðar.

Ég ferðaðist mikið sem barn. Við bræðurnir vorum teknir með pabba í hin og þessi ferðalög, og svo ferðaðist mamma líka með okkur. Staðirnir sem pabbi fór með okkur á voru sjaldnast neinir svaka túristastaðir þannig að við sáum sjaldan frontinn á ferðalögunum með honum þó eitthvað hafi verið um það, en það sem þau sýndu okkur bæði (mamma tók okkur frekar á túristastaði) var það sem skipti mestu máli - það sem var á bakvið. Þau bæði voru dugleg í að sýna okkur hvernig fólkið sem starfaði á ströndinni lifði, og hvernig brosandi þjónninn í fínu fötunum hjólaði heim til sín í pínulitlu íbúðina sína, skellti sér í stuttbuxurnar og borðaði dósamat.

Pabbi hóf hjálparstarf á dóminíkanska lýðveldinu og svo seinna á Haiti þegar ég var um átta ára gamall. Við bræðurnir dvöldum þar með honum og mömmu í nokkra mánuði í senn, og ævinlega bjuggum við meðal fólksins í tiltölulega einföldum híbýlum. Það kom fyrir að pabbi hefði þernu hjá okkur, en þegar svo var fórum við ævinlega í heimsókn til hennar og mannsins hennar í litla spýtna- og múrbrakið sem þau kölluðu heimili. Ég tók eftir að heimili fátæka fólksins voru alltaf svo hlýleg og þægileg þrátt fyrir öll skordýrin, óhreinindin og rafmagnsleysið inni á milli. Fólkið var svo náið og innilegt að mér leið stundum að ég væri í gömlu disney-ævintýri þar sem fjölskyldan söng við matarborðið.

Ég hef verið um þrettán ára, tæplega fjórtán þegar Pabbi sýndi mér Haiti í fyrsta skipti. Í þeirri ferð sá ég hvað paradís er hvað náttúrufegurð varðar, en einnig sá ég hvað helvíti á jörðu er hvað varðar aðstæður fólksins þarna. Arðrán sem þjóðin hafði orðið fyrir og endalausar styrjaldir og uppskerubrestir höfðu gert Haiti að einum versta stað sem manneskja getur fæðst á. Skítalyktin náði langt út fyrir höfuðborgina, og hvert sem litið var mátti sjá fátækt, eymd og volæði.

Eða hvað? Í þessu ríki þar sem lífslíkur eru milli 40 og 50 ár virtust mér allir miklu glaðari og opnari en hérna heima! Baráttuhugurinn og lífsgleðin í þessu fólki virtist vera allri fátækt og eymd yfirsterkari og litli ég, gat ekki annað en dáðst að þessu fólki. Ég sem hafði verið að væla yfir því nokkrum dögum fyrr að foreldrar mínir gáfu mér ekki leyfi til að fara í eftirlitlaust sumarbústaðapartí sá núna að ég ætti ekkert erindi með að kvarta þegar jafnaldrar mínir þarna höfðu áhyggjur af því að lifa daginn af! Fyrir kókdósina sem ég hélt á gat ég borgað skólagöngu svanga barnsins sem horfði á mig, og fyrir verð bolsins sem ég var í gæti ég kostað matinn fyrir þetta barn og fjölskyldu þess í margar vikur. Ég skildi þarna fyrst hvað ég í raun og veru væri heppinn, og hvað ég þyrfti að fara vel með það sem ég hafði fengið upp í hendurnar - lífið. Um leið öðlaðist ég þorstann fyrir að vita meira um ástæður ástandsins, hvernig tækist að bæta það og hvað umheimurinn (þar á meðal ég sjálfur) gæti gert.

Reynsla mín af átakasvæðum og fátækt settu djúpt far í líf mitt. Ýmsir myndu bölsótast út í foreldra mína fyrir að hafa farið með okkur á svona hættuleg svæði, en ég gæti ekki verið sáttari. Það þýðir stundum ekki bara að segja "borðaðu matinn þinn - litlu börnin í afríku svelta" og gera þetta þannig að leiðinlegu nöldri, heldur þarf að gera fólki (ég er ss. ekki bara að tala um börn hérna ef einhver er ekki að skilja hvert ég er að fara með þetta) grein fyrir því á einhvern áþreifanlegri hátt hvað í raun og veru er í gangi fyrir utan frontinn. Fáfræðin er sögð yndisleg og eflaust liði manni mun betur að geta haft áhyggjur af litlu öðru en háu bensínverði og bjarnardrápum og kannski hversu dýrt það er að fara til Costa del Sol(eða annan svipaðan stað) á hótel+sundlaug+roomservice+einkaströnd+klúbba+dagsferðir inn í landið(þar sem ljótu börnin í landinu eru að sjálfsögðu ekki sýnd gestunum)+sólbruna+bjór - en erum við ekki sem manneskjur í eðli okkar forvitin um eitthvað meira?

Langar okkur ekki öll stundum að sjá ljótu börnin í landinu sem svo kannski reynast mun fegurri en hin? Langar okkur ekki öll stundum að sjá að þjónninn í glæsifötunum á varla fyrir uppþvottadufti og er alkóhólisti á niðurleið í lífinu?

Mig langar að sjá þetta, því þannig öðlast ég bæði þekkingu á aðstæðum í kringum mig, sem og að ég finn þörfina í mér til að hjálpa náunganum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

váá´gunni það verður greynilega mjög gaman og fróðlegt að fylgjast með þinni ferð til Palestínu. Mér hafði ekki  dottið i hug að þú værir búin að upplifa svona mikið þegar ég sá þig fyrst í skólanum. Gangi þér rosalega vel með allt saman. Þetta verðru svakaleg lífsreynsla.. kv.telma

Telma FÁ (IP-tala skráð) 19.6.2008 kl. 21:00

2 Smámynd: Aron Björn Kristinsson

Virkilega gott blogg, hverju orði sannara með það hvernig hinn almenni einstaklingur upplifir heiminn (þ.e. með ignorance is bliss sjónarmiðinu).

Skemmtilegt líka að lesa reynslu þína af heiminum og þínar skoðanir. Haltu endilega áfram að vera duglegur að blogga.

p.s. Sé þig eflaust bráðlega, Sveinn Rúnar ætlaði að kalla mig á fundinn sem hann ætlar að eiga með þér áður en þú ferð.

Aron Björn Kristinsson, 20.6.2008 kl. 18:37

3 identicon

Þú mátt líka alveg koma hingað og vinna á einum af fríu spítulunum í Phnom Penh, eða með Operation Smile (gerir við holgóma börn). Nú eða hjálpa mínum 29 börnum. Eða í súpuledhúsinu okkar, ekki samt við að elda, heldur við að mata fólk og athuga heilsuna.

Gangi þér vel í Palestínu.

Sakna þín og hlakka til að sjá þig í ágúst.

Erna Eiríksdóttir (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 01:24

4 identicon

mikið er þetta góð blogfærsla, ég var alveg tilbúin að halda áfram að lesa mig betur inn í þessa góðu bók sem var svo bara ein og hálf bls á netsíðu - hlakka til að lesa um upplifunina hérna á síðunni, gangi þér feikilega vel, megi vættirnir vaka yfir þér og knúsaðu önnu frá mér;)

p.s. þið verðir flott þarna úti, þú og ann, tveir Glókollar frá Íslandi:)

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 00:01

5 identicon

Hæ elsku yndislegi bróðir minn,

ég kom inn að kíkja á bloggið þitt - þar eru bara gullmolar eins og venjulega :)

Fylgist með þér - ég er með hugann hjá þér - gangi þér allt vel.

GPD sendir þér knús og kossa.

xoxox Jóhanna.

Jóhanna Dögg Pétursdóttir (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 13:30

6 identicon

Elsku Gunni minn gangi þér rosalega vel þarna úti. Alltaf gaman að lesa bloggin þín. Þér er ætlað að gera eitthvað stórkostlegt í lífinu og þetta er bara byrjunin!

Farðu vel með þig!

Knús, Erla frænka.

Erla (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 13:48

7 identicon

Elsku Gunnar minn

 Ég hugsa til þín á hverjum degi kæri vinur minn og ávallt er svo gott að setjast niður og lesa það sem þú hefur að segja.

Þín vinkona

Nanna Dís Jónsdóttir (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 23:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Pétursson
Gunnar Pétursson
Höfundur er hjúkrunarfræðinemi staddur í Palestínu dagana 26.júní til 2.ágúst
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband