Leita í fréttum mbl.is

opið bréf til Ísraelsstjórnar og velunnara hennar

Ég get ekki lengur verið málefnalegur eða fullkomnlega hlutlaus í þessari umræðu. Augu mín hafa séð of mikinn hrylling í fréttunum síðustu daga og reynsla mín frá síðasta sumri þegar ég dvaldist sem sjálfboðaliði á Vesturbakkanum segir mér að hér sé eitthvað virkilega rangt í gangi.
Opinber yfirlýsing mín í garð Ísraelskra stjórnvalda og stuðningsmanna hennar er þannig eftirfarandi:

Kæra Ísraelsstjórn og velunnarar hennar.
Skammist ykkar! Skammist ykkar niður í tær og ég vona af öllu hjarta að gjörðir ykkar muni fylgja ykkur líkt og drýsill á baki ykkar út lífið. Ég vona svo sannarlega að þið sofið á nóttunni, þið morðingjar sem fótum troðið allt sem kallast getur mannréttindi. Skotið er á bílalestir hjálparstarfsmanna, skólar alþjóðlegra stofnana eru sprengdir í tætlur og hjálparstofnunum er meinaður aðgangur að Gaza. Fréttaflutningur er takmarkaður og ritskoðaður þannig að við fáum líklegast seint eða aldrei að heyra alla söguna hvað er í raun og veru að gerast þarna.
Saklausu fólki er slátrað jafnt sem bardagamönnum og það í hundraðatali. Talan er nú farin að nálgast 1000, og ég býst við því að hjarta ykkar slái aukaslag þegar þúsundasti "andstæðingur" ykkar er felldur. Vonandi finnið þið fyrir þessu aukaslagi í hjartanu og vonandi munið þið muna þetta eina aukaslag. Ef drápin verða fleiri í þessari útrýmingarherferð ykkar þá vona ég að þið munið þau öll - því hvert eitt og einasta líf sem þarna tapast, jafnt Palestínumanna sem ykkar eigin hermanna er afleiðing af þeirri stefnu sem þið hafið látið viðgangast í of langan tíma.

Ég veit að landsvæðið er mikilvægt á svo marga vegu fyrir báða aðila og að hvorugur er tilbúin að láta það af hendi, en það er einfaldlega þannig að það VERÐUR að finnast lausn á þessu máli. Vesturbakkinn er ekki lengur Palestínskt sjálfsstjórnarsvæði, heldur er svæðið morandi í ólöglegum landnemabyggðum þar sem íbúar þeirra beita oftar en ekki ofbeldi, jafnt líkamlegu sem efnahagslegu og andlegu ofbeldi þá Palestínumenn sem í kring búa. Bújarðir eru teknar af bláfátækum bændum, vegir lagðir gegnum ræktarland og lágur veggur sem heldur ekki hryðjuverkamönnum heldur búfénaði í burtu er lagður meðfram veginum.

Lokir þú dýr inni og þrengir sífellt að búsvæði þess þá kemur að því einn daginn að það mun bíta. Blástu í blöðru nógu lengi og hún springur. Sláðu lítið barn utanundir nógu oft og það kemur að því að það safnar kröftum og slær einn daginn harkalega frá sér. Hættir þú aftur á móti að þrengja að dýrinu og gefir því eftir athafnasvæði má vel vera að það láti þig í friði þó það fyrirgefi þér seint fyrir að hafa þrengt svona að því.

Kæra Ísraelsstjórn og velunnarar hennar: Ég vona að þið sofið á nóttunni. Ég vona að friður sé í hjarta ykkar þegar þið sofnið á kvöldin. Ég vona að áður en ykkar síðasti andardráttur rennur upp flæði um ykkur friðartilfinning og þið fyllist skilningi á þeim voðaverkum sem þið hafið gerst sekir um.
Ég vona að þið getið sagt einn daginn við þá sem misst hafa ástvini sína - jafnt ísraelska sem palestínska - að ykkur þyki fyrir því að líf þeirra hafi glatast. Og ég vona af öllu hjarta að einhver - þó það væri aðeins ein manneskja - muni fyrirgefa ykkur þessi voðaverk.

Friður, kraftur og gleði sé með ykkur - því það er sú tilfinning sem þið þarfnist á augnablikinu.

-Gunnar Pétursson
Hjúkrunarfræðinemi á 3.ári við Háskóla Íslands, sjálfboðaliði í Nablus, Vesturbakkanum sumarið 2008.


mbl.is Yfir 800 hafa látist á Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Hvað myndir þú leggja til að Ísraelsríki geri þegar skotið er á íbúa þeirra, þegar þeir þurfa að búa í stanslausum ótta við að skotið sé flugskytum á þá?

Hamas ber nánast einhliða ábyrgð á þessu stríði og dauða almennra palenstínkra borgara. Þegar skólar, moskur, og heimili eru notuð sem vopnageymslur, þegar skotið er frá stöðum þar sem eru almennir borgarar, þegar þeir berjast þannig að almennir borgarar lenda í hættu bera þeir nánast alla ábyrgð á lífum þeirra sem deyja þar. Þegar Hamas samtökin brutu vopnahlé milli þeirra og Ísraelsríkis, þegar þeir geyma sprengiefni í skólum, þegar þeir skjóta raketum frá mörkuðum eru þeir að gera dauðan vísan fyrir fleiri löndum sínum.

Mér er varla orðum vart hversu lélega heimsmynd margir Íslendingar hafa um þessar stundir þar sem að hriðjuverkamönnum er vorkennt og grímuklæddum glæpamönnum hillt.

*Ég er mikill stuðningsmaður nýfundnar mótmælishyggju og hef sjálfur mætt, en þeir sem sýna ekki andlit sitt, ráðast at lögreglumönnum og öðrum eru einfaldlega heiglar og ótýndir glæpamenn.

-Summer Glau

Summer Glau (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 23:57

2 Smámynd: Gunnar Pétursson

Blessaður Summer Glau. Þú endar á því að skjóta þig í fótinn hvað að fela andlit sitt varðar, þar sem þú skrifar undir nafnleysi en jújú...það skiptir svosem ekki höfuðmáli hér...

Þú spyrð hvað ég leggi til að Ísraelsríki geri? Til að svara spurningu þinni skulum við skoða hvernig ástandið hefur verið undanfarin ár og áratugi... Gaza er innilokað svæði í dag, og íbúar þess komast lítið sem ekkert utan þess. Sífelldar innrásir hafa verið af hálfu ísraela í marga áratugi og fólkið þarna sem er flóttamenn í eigin landi býr við stanslausan ótta við innrásir eða sprengjuárásir. Matvælaskortur, eldsneytisskortur, lyfjaskortur og fleiri huggulegir hlutir eru viðvarandi á Gaza.

Segðu mér eitt kæri vinur: Ef þú byggir í flóttamannabúðum sem fjölskyldu þinni hefði verið holað í vegna þess að landi þeirra var rænt af þeim, þú vissir af kúgun landtökuríkisins á hendur bræðrum þínum á öðrum stað í landinu (vesturbakkanum t.d), og þú lifðir við þessar aðstæður sem fólk á Gaza býr við - myndir þú sitja aðgerðalaus?

Ég efa það að heift myndi ekki fylla hjarta þitt - þó það væri ekki nema bara á einum tímapunkti. Þú myndir eflaust ekki bera hlýhug til landránsríkisins og ég býst einnig sterklega við því að þú myndir berjast með einhverjum hætti gegn landránsríkinu - þó mögulega væri hægt að gera það með friðsömum hætti.

Uppreisnir og árásir í Palestínu munu ekki hætta fyrr en Ísrael hefur létt einangruninni af Gaza og látið af hendi ólöglegar landnemabyggðir á Vesturbakkanum. Þá fyrst verður mögulega hægt að ræða frið.

Með bestu kveðju

-Gunnar

Gunnar Pétursson, 10.1.2009 kl. 00:21

3 identicon

Summer Glau. Mig langar að spyrja þig hvað þér finnist um að Ísraelar neiti hjálparstofnunum að komast inn með starfsfólk,mat , lyf og aðrar nauðsynjar, erlendum fréttamönnum að komast inn svo að hægt verði að segja hlutlaust og rétt frá ástandinu.

Hvað finnst þér um að þeir ráðast á hjálparstofnanir...nú í dag er frétt á dagbladet hér í Noregi að þeir hafi sprengt upp bíl sem er í eigu Norsk Folkehjelp http://www.dagbladet.no/2009/01/10/nyheter/krigen_i_gaza/israel/utenriks/4317054/ sem er vel merktur og stóð utan við hús sem starfsmaður NF býr í.

 Aðalritari NF segir að í nágrenninu séu engin hernaðarleg skotmörk og því hafi verið miðað á bilinn eða húsið !! Þær flaugar sem notaðar eru af Ísraelsher séu mjög nákvæmar og hitti þau skotmörk sem þeim sé ætlað.

Þú segir sjálfur að þú mótmælir því óréttlæti sem nú viðgengst á Íslandi og mætir á mótmælafundi. Hvernig finnst þér að Ísraelar hafa haldið íbúum Gaza í "búri" innilokuðum með múr meðfram landamærum Gaza og Ísrael sem minnir á Berlínarmúrinn og stjórna algjörlega hvað kemst inn ? Ekki bara nú heldur líka áður en stríðið byrjaði.  Allar nauðsynjar þurfa að fara í gegnum Ísrael ekki satt? Því ráða ekki Ísraelar yfir landsvæðinu meðfram landamærunum til Egyptalands?? Þeir hafa stjórnað öllu sem íbúar Gaza fá inn...fyrir utan það sem Hamas tekst að smygla frá Egyptalandi.

Ég styð ekki árásir Hamas á nokkurn hátt en ég hef skilning á að á einhvern hátt verða þeir að mótmæla meðferðinni.

Segjum sem svo að Danir kæmu nú vaðandi með sinn her til Íslands og tækju landið aftur! Þeir myndu úthluta íslendingum Snæfellsnesið, reka hverja einustu manneskju þangað og girða það af.  Þeir myndu svo passa að við fengjum einungis það sem þeim þóknaðist að láta okkur fá. Einhvernveginn tækist okkur að fá vopn og notuðum þau til að reyna að klekkja á Dönum en það væri frekar máttlítið í samanburði við þau vopn sem Danir eiga.

Kannski er þessi samlíking ekki raunhæf og þó. Ég er á móti stríðsrekstri almennt...gildir einu hver á í hlut og styð alls ekki sjálfsmorðsárásir Hamas á Ísrael eða rakettusendingarnar...en mér ofbýður hvernig Ísraelar vaða yfir og hreinlega slátra á Gaza, úr lofti, á landi og með eldflaugasendingum frá Ísrael...og hindra og neita alþjóða hjálparstofnunum að koma særðum til aðstoðar.

Það finnst mér virkilega ómannúðlegt og það er brot á öllum mannréttindum og samþykktum Sameinuðu Þjóðanna.

Sigrún (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Pétursson
Gunnar Pétursson
Höfundur er hjúkrunarfræðinemi staddur í Palestínu dagana 26.júní til 2.ágúst
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband